Fótbolti

Austurríki verður að vinna Ísland til að komast áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Alaba í baráttu í leiknum gegn Portúgal í gær.
David Alaba í baráttu í leiknum gegn Portúgal í gær. Vísir/Getty
Það stefnir í æsispennandi lokaumferð F-riðils á EM í Frakklandi en hún fer fram á miðvikudag, er Ísland mætir Austurríki og Ungverjaland leikur gegn Portúgal. Báðir leikirnir hefjast klukkan 16.00.

Ísland á enn möguleika á að enda í fyrsta, öðru, þriðja eða fjórða sæti riðilsins og það væri meira að segja mögulegt að fara áfram þrátt fyrir tap, þó það sé ólíklegt.

Tvö efstu liðin fara áfram úr hverjum riðli auk þeirra fjögurra liða sem bestum árangri ná í þriðja sæti riðlanna sex á EM í Frakklandi.

Sjá einnig: Rýnt í möguleika Íslands: Fínir möguleikar á sæti í 16-liða úrslitum

En Austurríki, andstæðingur Íslands, á miðvikudag er neðst í riðlinum með aðeins eitt stig og markatöluna 0-2. Málið er einfalt fyrir þá austurrísku, liðið verður að vinna Íslendinga til að eiga möguleika á að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum.

Jafntefli gæti dugað Austurríki til að komast upp í þriðja sæti ef að Portúgal tapar fyrir Ungverjalandi með að minnsta kosti tveggja marka mun. Samkvæmt heimasíðu UEFA dugir það ekki til að komast áfram vegna slæmrar markatölu Austurríkismanna.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×