Fótbolti

Vrba: Við erum með lausnir fyrir Eið Smára

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vrba stýrir landsliðsæfingu Tékka á Laugardalsvelli í gær.
Vrba stýrir landsliðsæfingu Tékka á Laugardalsvelli í gær. Vísir/Ernir
Pavel Vrba, landsliðsþjálfari Tékklands, reiknar með því að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson muni koma með óvænt útspil á Laugardalsvelli í kvöld.

Íslenska landsliðið tekur þá á móti Tékkum í undankeppni EM 2016 en í húfi er toppsæti riðilsins auk þess sem að sigur færir því liði góðan möguleika á að komast alla leið í lokakeppnina í Frakklandi.

„Ég á von á öðruvísi leik nú,“ sagði Vrba á blaðamannafundi í Laugardalnum í gær þegar hann var spurður út 2-1 sigur Tékka á Íslandi í Plzen í nóvember.

„Ég þykist vita að íslensku þjálfararnir fóru vel yfir þann leik og munu bregðast við því sem fór úrskeðis hjá íslenska liðinu þá. Þeir koma örugglega með eitthvað nýtt í leiknum en það er aldrei að vita nema að við gerum það líka.“

Eiður Smári var í byrjunarliði Íslands í síðasta leik en óvíst er hvort að slíkt verði einnig upp á teningnum í kvöld. En hvernig sem fer þá segist Vrba vera með svör á reiðum höndum.

„Ég veit að hann var íslenska liðinu mikilægur í Kasakstan og ef hann verður í byrjunarliðinu mun það breyta miklu fyrir íslenska liðið. Hann er allt öðruvísi leikmaður en [Jón Daði] Böðvarsson en okkar leikmenn hafa fengið upplýsingar og vita hvernig þeir eiga að bregðast við honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×