Sport

Man. United seldi sænskan lands­liðs­mann til For­est

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anthony Elanga kominn í búning Nottingham Forest.
Anthony Elanga kominn í búning Nottingham Forest. Twitter/@NFFC

Nottingham Forest hefur gengið frá kaupunum á sænska vængmanninum Anthony Elanga frá Manchester United.

Hinn 21 árs gamli Elanga gerir fimm ára samning við Forest.

Elanga náði ekki að skora í 26 leikjum í öllum keppnum með Manchester United á síðasta tímabili en lagði upp tvö mörk þar á meðal mark Jadon Sancho í 2-1 sigri á Liverpool.

Elanga hefur skorað þrjú mörk í tólf landsleikjum fyrir Svía.

„Það fylgir því mikil ánægja að vera kominn hingað. Þerra er stór stund fyrir ekki bara mig heldur fyrir alla mína fjölskyldu,“ sagði Anthony Elanga á heimasíðu Nottingham Forest.

„Þetta er fullkomið næsta skref á ferlinum fyrir mig. Þetta er stórt skref og ég hlakka mikið til að spila fyrir framan stuðningsmennina á The City Ground,“ sagði Elanga.

„Það var áhugi frá öðrum félögum en mér leið eins og Nottingham Forest væri fullkominn staður fyrir mig. Ég hef spilað hér með United og frá því að ég byrjaði að hita upp þá heyrði ég í stuðningsmönnunum í klefanum,“ sagði Elanga.

„Þetta er sérstakur staður og hann verður enn sérstakari nú þegar ég spila hér. Ég er tilbúin í þessa áskorun og vil bara byrja þetta sem fyrst,“ sagði Elanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×