Innlent

Ekki bara færðin sem var að trufla menn í umferðinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögreglu barst fjöldi tilkynninga vegna umferðaróhappa.
Lögreglu barst fjöldi tilkynninga vegna umferðaróhappa. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt og var meðal annars kölluð út vegna nokkurs fjölda umferðarslysa. 

Einhvern tímann í gærkvöldi óskaði strætisvagnsstjóri aðstoðar lögreglu í Mjódd vegna ungra drengja sem voru til vandræða í vagninum hjá honum. Var þeim vísað út af lögreglu.

Í miðborginni var óskað eftir aðstoð vegna einstaklings sem svaf ölvunarsvefni í spilaleikjasal en hann var vakinn og komið í húsaskjól. 

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar í póstnúmerinu 104, þar sem einn var handtekinn.

Tilkynningar bárust um rúðubrot á skemmtistað í miðbænum og þjófnað úr verslun í póstnúmerinu 210.

Tilkynnt var um fjölda umferðaróhappa en það var ekki bara færðin sem var að valda ökumönnum erfiðleikum. Í að minnsta kosti þremur tilvikum lágu ökumenn undir grun um að hafa verið að aka undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Ekið var bæði á ljósastaur og umferðarljós og þá barst ein tilkynning um hálkuslys. Sá sem fyrir slysinu varð var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Ein tilkynning barst þar sem kvartað var undan einstaklingi sem var að trufla umferð í Hafnarfirði. Sá var ofurölvi og var komið heim til sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×