Innlent

Líkamsárás, eignaspjöll og menn undir áhrifum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla var tvisvar kölluð til vegna sama manns, sem var að lokum handtekinn vegna þjófnaðar og vímuástands.
Lögregla var tvisvar kölluð til vegna sama manns, sem var að lokum handtekinn vegna þjófnaðar og vímuástands. Vísir/Vilhelm

Það er óhætt að segja að verkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt hafi verið fjölbreytt en útköll bárust meðal annars vegna líkamsárásar, fíkniefnaneyslu, ofurölvi einstaklinga og innbrota.

Í miðborginni var einum ofurölvi einstakling ekið heim og öðrum í sama ástandi komið í úrræði, samkvæmt tilkynningu lögreglu. Þá var tilkynnt um líkamsárás og eignarspjöll og er það mál í rannsókn.

Einn var handtekinn í miðborginni vegna þjófnaðar og vímuástands, eftir annað útkall næturinnar vegna mannsins. Einum ölvuðum einstakling var vísað úr bílakjallara vegna hátternis og þá var tilkynnt um innbrot á heimili. 

Að auki voru no0kkrir stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum.

Í öðrum hverfum borgarinnar var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna neyslu fíkniefna í fjölbýlishúsi en ekki þótti ástæða til aðgerða þegar lögregla kom á vettvang. Þá var manni vísað útaf hóteli vegna vímuástands.

Lögregla sinnti einnig útkalli vegna hávaðakvörtunar og eignaspjalla á bifreið og aðstoðaði sjúkralið í útkalli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×