Innlent

Flestar tölur á pari við það sem búast mátti við

Andri Eysteinsson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Mynd/Lögreglan

Sóttvarnalæknir segir að miðað við tölfræði frá Hubei-héraði í Kína, þar sem talið er að faraldur kórónuveirunnar eigi upptök sín, séu tölur hér á landi að mestu á pari við það sem búist var við áður en að faraldurinn hófst.

Á upplýsingafundi dagsins var Þórólfur spurður að því hvort hann hafi búist við verri stöðu en orðið hefur í faraldrinum.

„Maður bjóst svo sem ekki við neinu sérstöku nema því að þetta gæti orðið alvarlegt,“ sagði Þórólfur og bar svo saman tölfræði Íslands og Hubei-héraðs í Kína.

„Miðað við reynsluna frá Hubei héraði mátti búast við að sjá um fimmtán dauðsföll, þrjátíu einstaklinga á gjörgæslu og miðað við uppgefinn fjölda smitaðra í Hubei, þá hefði maður geta séð 300 greinda einstaklinga,“ sagði Þórólfur.

Alls hafa tíu látist í faraldrinum hér á landi, heildarfjöldi smitaðra er orðinn 1792 og um þrjátíu Íslendingar hafa verið lagðir inn á gjörgæsludeild.

Mun fleiri hafa verið greindir með smit hér á landi en gera mátti ráð fyrir út frá reynslunni frá Hubei. „Hitt er svona nokkurn veginn á pari og undir því sem maður bjóst við,“ sagði Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×