Innlent

Mikið minna keyrt um hringveginn vegna veðurs

Samúel Karl Ólason skrifar
Vegagerðin notast við sextán lykilteljara á Hringvegi til að fá þessar tölur út.
Vegagerðin notast við sextán lykilteljara á Hringvegi til að fá þessar tölur út. Vísir/Vilhelm

Mun færri keyrðu um hringveginn í janúar en gerðu í janúar í fyrra. Alls er samdrátturinn tæp átta prósent og þarf að fara átta ár aftur í tímann til að finna viðlíka samdrátt. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar þar sem segir einnig að líklega útskýri slæmt veðurfar í mánuðinum stóran hluta samdráttarins.

Samdráttur þessi náði til allra landsvæða.

Vegagerðin notast við sextán lykilteljara á Hringvegi til að fá þessar tölur út. Alls dróst umferð saman um tæp átta prósent en síðasti sambærilegi samdráttur var árið 2012, þegar umferð dróst saman um tíu prósent. Þá jókst umferðin þó á Austurlandi.

Að þessu sinni dróst umferðin saman í öllum landshlutum. Mest á Vesturlandi eða um tæp 17 prósent og minnst á Austurlandi eða um 3,5 prósent.

Þá dróst umferðin saman á öllum vikudögum. Hlutfallslega var samdrátturinn mestur á fimmtudögum en minnstur á föstudögum. Þá er mest ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum.

„Ástæður samdráttar í umferð á Hringvegi árið 2012 er sjálfsagt flestum kunn en þá var efnahagskreppa á Íslandi, en nú hins vegar má gefa sér að afar slæm tíð í janúar eigi mesta sök á lítilli umferð,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Þar segir einnig að áhugavert verði að fylgjast með framhaldinu næstu mánuði og því hvort áfram muni mælast samdráttur í umferð á Hringvegi.

.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×