Íslenski boltinn

Eru Stjörnumenn ekki í formi?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þreytulegir Stjörnumenn í lok leiks á móti Víkingum.
Þreytulegir Stjörnumenn í lok leiks á móti Víkingum. Vísir/Bára
Stjarnan hefur enn ekki fengið á sig mark í fyrri hálfleik í Pepsi Max deild karla í sumar en liðið er samt bara í sjöunda sæti deildarinnar eftir sex umferðir. Ástæðan eru vandræði liðsins í seinni hálfleik.

Það mætti halda að Stjörnumenn séu ekki í formi þegar tölfræði liðsins í Pepsi Max deildinni er skoðuð og þá sérstaklega hvenær liðið er að fá á sig mörkin í leikjunum.

Aðeins eitt lið í deildinni er með betri markatölu í fyrri hálfleik og það er topplið Skagamanna. ÍA er 5 mörk í plús fyrstu 45 mínútur leikjanna sinna en Stjarnan er 4 mörk í plús á sama tíma.

En hvernig hefur Stjarnan þá farið að því að tapa tíu stigum í fyrstu sex leikjum sínum?

Jú markatala liðsins í seinni hálfleik er sex mörk í mínus. Stjörnuliðið hefur fengið á sig 9 mörk í seinni hálfleiknum eða fleiri en öll önnur lið Pepsi Max deildarinnar.

Stjarnan hefur líka aðeins skorað þrjú mörk síðustu 45 mínútur leikjanna en aðeins ÍBV liðið hefur skorað færri mörk eftir hlé.

Næsti leikur Stjörnunnar í Pepsi Max deild karla er heimaleikur á móti Val á sunnudagkvöldið en leikurinn hefst 19.15 og er í beinni á Stöð 2 Sport.

Hér fyrir neðan má sjá að Stjörnumenn eru við toppinn þegar kemur að bestu markatölunni í fyrri hálfleik en við botninn yfir verstu markatöluna í seinni hálfleik.

Besta markatalan í fyrri hálfleik í Pepsi Max deild karla:

ÍA +5 (6-1)

Stjarnan +4 (4-0)

Breiðablik +2 (3-1)

KR +1 (4-3)

FH +1 (4-3)

Versta markatalan í seinni hálfleik í Pepsi Max deild karla:

ÍBV -7 (1-8)

Stjarnan -6 (3-9)

Víkingur -2 (6-8)

HK -1 (4-5)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×