Innlent

Kerfið refsi þeim sem þolað hafa óbærilegar þjáningar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Lögmaður sem gætt hefur hagsmuna burðardýra segir skjólstæðinga sína hafa lítið upp úr því að aðstoða lögreglu.
Lögmaður sem gætt hefur hagsmuna burðardýra segir skjólstæðinga sína hafa lítið upp úr því að aðstoða lögreglu. Vísir/Getty
„Einu fórnarlömb mansals sem ég hef rekist á í mínum störfum eru umsvifalaust sett í gæsluvarðhald, helst einangrun, áður en þau eru dæmd í fangelsi. Að afplánun lokinni er þeim svo hent úr landi,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður og vísar til umræðu um mansal í fréttum að undanförnu. Hann segir áherslu og forgang lögreglu og annarra stjórnvalda á málaflokkinn skjóta skökku við.

Í frétt á Vísi fyrr í mánuðinum sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur hjá lögreglunni á Suðurnesjum, að mikilvægt væri að eyða staðalmyndum um þolendur mansals. Páll Rúnar tekur undir þetta en segir lögregluna þurfa að líta í eigin barm vegna þolenda mansals sem litið er á sem sakamenn í refsivörslukerfinu.

„Þetta eru oft konur sem hafa verið neyddar til þess að flytja inn fíkniefni innvortis, margar hverjar hafa auk þess neyðst til að selja líkama sinn með öðrum hætti. Þær eru algerlega á valdi kvalara sinna sem fara með þær eins og hvert annað rusl. Þegar refsivörslukerfi okkar fær þær svo í sínar hendur er upplifun þeirra ekki sú að þeim hafi verið bjargað, heldur þvert á móti,“ segir Páll Rúnar og bætir við: „Nú skal refsa þeim fyrir að þola óbærilegar þjáningar sínar.“

„Þetta er nú langoftast fólk í einhvers konar nauðung, hvort það er mansal þori ég nú ekki að segja, en alltaf svona fólk sem er minni máttar í þjóðfélaginu. Þetta er ekki fólk í góðri stöðu og yfirleitt einhver nauðung sem rekur fólk út í að gera svona,“ segir Halldóra Aðalsteinsdóttir, lögmaður á Suðurnesjum, sem gegnt hefur verjendastörfum fyrir mörg burðar­dýr. Hún segir þennan hóp mjög fjölbreyttan, fólk á öllum aldri og af báðum kynjum.

Sjá einnig: Engin ein ákveðin einkenni hjá þeim sem stunda mansal

Hún segir það galla á réttarkerfinu að skjólstæðingar hennar hafi lítið sem ekkert upp úr því að veita lögreglu aðstoð við að upplýsa mál með því að gefa upp nöfn skipuleggjenda. „Það er engin hvatning fyrir fólk að vera að hætta lífi sínu til að gefa mikið upp,“ segir Halldóra.

Fréttablaðið skoðaði þá dóma sem fallið hafa í málum burðardýra á undanförnum árum. Athygli vekur að nær undantekningarlaust er um útlendinga að ræða og í nær öllum tilvikum koma þau með fíkniefni til landsins í gegnum Keflavíkurflugvöll.

Í mörgum tilvikum lýsir sakborningurinn neyð sinni og eftir atvikum þvingunum sem beitt var í aðdraganda brotsins. Misjafnt er hvort og með hvaða hætti er vísað til slíkra þvingana í dómi en dæmi eru um að meint nauðung sé virt dómfellda til refsilækkunar. Af því má draga þá ályktun að frásagnir þessar séu teknar trúanlegar.

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögfræðingur
Í einu tilviki eru átakanlegar lýsingar ákærðrar konu raktar í dómi og því lýst yfir að lýsingar hennar á nauðung séu trúverðugar. Hún var engu að síður sakfelld og dæmd í 12 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

Nánast undantekningarlaust er farið með þessi mál sem játningarmál sem þýðir að viðkomandi játar við þingfestingu og málið er dómtekið strax án þess að frekari sönnunarfærsla fari fram. Tekið er tillit til skýlausrar játningar við ákvörðun um refsingu en þyngd hennar fer að öðru leyti eftir magni efnisins sem reynt var að flytja inn og styrkleika þess.

Helsta ástæða þess að burðardýr njóta ekki verndar sem þolendur mansals er að mansalsákvæði almennra hegningarlaga nær ekki til innflutnings eiturlyfja heldur einungis til kynferðislegrar misnotkunar, nauðungarvinnu og líffærabrottnáms. Þetta kom fram í máli Öldu Hrannar í samtali við Fréttablaðið fyrir réttu ári en hún hefur lýst þeirri skoðun að ákvæðið þurfi einnig að taka til skipulagðrar glæpastarfsemi til að ná almennilega utan um mansalsvandann.

Verði mansalsákvæðinu breytt með þessum hætti gæti það haft þau áhrif að þau brot sem þolandinn sjálfur hefur tekið þátt í að fremja verði refsilaus í hans tilviki, rannsókn á mansali í skipulagðri glæpastarfsemi gæti frekar leitt til ákæru og sakfellingar fyrir mansal. Þá fengi þolandinn einnig stöðu brotaþola en ekki sakbornings og kynni því að njóta aukinnar verndar, njóti lögregla aðstoðar hans við lausn málsins.

Hjá lögreglu hefur hins vegar efasemdum verið lýst um refsileysi fyrir burðardýr. Um tvíeggjað sverð geti verið að ræða sem brotamenn kunni að færa sér í nyt með enn meiri misnotkun á fólki í viðkvæmri stöðu.

En þrátt fyrir að mansalsákvæðið sé enn ófullkomið og taki ekki til brotastarfsemi af þessum toga eru til dæmi um að lögregla hafi íhugað að leggja ekki fram ákæru gegn burðardýri vegna aðdragandans að ferð þess til landsins.

Í kjölfar umfjöllunar Fréttablaðsins í fyrravetur var leitað eftir afstöðu dómsmálaráðherra til breytinga á ákvæðinu. Þau svör fengust úr ráðuneytinu að ákvæðið væri til skoðunar og frumvarps gæti verið að vænta á komandi misserum.

Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins í síðustu viku segir að enn standi til að kanna hvort þörf sé á breytingum á löggjöfinni en vinna við gerð áherslna stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali hafi verið í forgangi og dómsmálaráðherra muni kynna áherslur stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali á næstu vikum. 


Tengdar fréttir

Engin ein ákveðin einkenni hjá þeim sem stunda mansal

Mansal er mikið hér á landi að sögn yfirlögfræðings hjá Lögreglunni á Suðurnesjum. Mest sé hætta á mansali þar sem vöntun er á vinnuafli. Hún telur þörf á að færa löggjöf um mansal hér á landi nær evrópskum stöðlum þar sem það nær yfir víðtækari misnotkun á fólki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×