Viðskipti erlent

Virði lírunnar hríðfellur í kjölfar tísts Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/AP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur hvatt Tyrki til að nota allt gull og alla dali sem þeir eiga til að kaupa lírur, gjaldmiðil Tyrklands. Líran hefur hríðfallið í virði í dag eftir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti að hann ætlaði að tvöfalda tolla gegn Tyrklandi.

Erdogan hélt ræðu í dag þar sem hann sagði „stuðningsmenn“ valdaránsins beita öðrum leiðum til að ráðast á Tyrkland í kjölfar endurkjörs hans sem forseta. Hann sakaði einnig hulduhópa um að reyna að fella efnahag Tyrklands. Því biðlaði hann til þjóðarstolts Tyrkja.



„Ef einhver á dali eða gull undir koddanum, ætti sá að skipta þeim fyrir lírur. Þetta er barátta þjóðarinnar,“ sagði Erdogan.

Samkvæmt BBC hefur virði lírunnar lækkað um fimmtung í dag. Fjármálaráðuneyti Tyrklands sagði tolla Trump brjóta gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.



Samband Tyrklands og Bandaríkjanna, sem eru bæði í Atlantshafsbandalaginu, hefur beðið hnekki að undanförnu og má að mestu rekja það til handtöku bandaríska prestsins, Andrew Brunson, í Tyrklandi og réttarhalda yfir honum. Hann hefur verið sakaður um njósnir og stuðning við hryðjuverkasamtök en Tyrkir hafa viljað skipta á honum og klerkinum Fethullah Gulen, sem er í útlegð í Bandaríkjunum.

Tyrkir hafa sakað Gulen um að skipuleggja valdarán í Tyrklandi fyrir tveimur árum og hafa farið fram á að hann verði framseldur. Bandaríkin hafa hins vegar ekki viljað gera það án sannanna. Tyrkir hafa einnig verið á móti stuðningi Bandaríkjanna við sýrlenska Kúrda og voru ósáttir við nýjar viðskiptaþvinganir gegn Íran en Tyrkir fá um helming olíu sinnar þaðan.

Skömmu eftir að Trump tilkynnti tollana í tísti ræddi Erdogan við Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í síma. Forsetaembætti Rússlands gaf svo í kjölfarið út tilkynningu um að forsetarnir hefðu rætt um efnahagsmál og viðskiptatengsl ríkjanna.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×