Sport

Græði meira með landsliðinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Tryggvi Snær á að baki 24 leiki fyrir A-landslið Íslands
Tryggvi Snær á að baki 24 leiki fyrir A-landslið Íslands Vísir/Anton
Ísland mætir Búlgaríu í öðrum leik liðsins í undankeppni HM 2019 í körfubolta í Laugardalshöll í kvöld. Fyrsti leikur undankeppninnar tapaðist gegn Tékkum ytra á föstudaginn. Tryggvi Snær Hlinason fékk ekki að spila með íslenska landsliðinu í þeim leik, en lið hans Valencia hleypti honum ekki í leikinn vegna þátttöku liðsins í Euroleague.

Alþjóðakörfuboltasambandið, FIBA, er í hálfgerðu stríði við forráðamenn Euroleague. Deildin er óháð FIBA og er gagngert að setja leikdaga sína þegar FIBA setur landsleikjahlé, að því virðist til þess að koma í veg fyrir að þeir bestu spili með landsliðum sínum. Tryggvi Snær lenti á milli í þessu stríði, en hvernig upplifði hann það?

„Ég hef lítil áhrif á þetta þannig, er bara á hliðarlínunni og stíg upp ef ég er beðinn um að standa upp,“ sagði Tryggvi á æfingu landsliðsins í Laugardalshöll í gær. „Það er leiðinlegt að lenda á milli í þessu stríði. Þetta eru tvær stóru körfuboltahliðarnar og ef þeir eru að rífast þá er það eina sem maður getur gert að sitja og vona það besta. Vona að KKÍ og Valencia geti græjað þetta fyrir mann og geta tekið þátt. Það er alltaf skemmtilegt að taka þátt og geta hitt Íslendingana.“

Það fór svo að Tryggvi kom ekkert við sögu í leik Valencia á fimmtudagskvöldið. Hann vildi þó ekki meina að það gerði það sárara að hafa ekki fengið að taka þátt í landsliðsverkefninu. „Það eru margar hliðar á þessu. Það yrði frekar rangt að hleypa mér en engum öðrum. Það var helsta vandamálið. Þeir ákváðu eftir að hafa fundað um þetta að hleypa mér þar sem ég missi ekki af neinum leikjum. Ég missi af einhverjum 2-3 æfingum, sem er leiðinlegt, en þeir ákváðu að hleypa mér og telja að ég geti grætt meira á því að spila hér með landsliðinu þar sem ég get tekið meiri þátt,“ sagði Norðlendingurinn efnilegi.

„Ég er bara spenntur,“ sagði Tryggvi aðspurður um hvernig honum lítist á leik kvöldsins. „Spennandi að taka leik hérna á Íslandi fyrir framan alla áhorfendurna, vonandi verða sem flestir. Það er heiður að fá að spila fyrir Ísland.“

Búlgarar töpuðu naumlega gegn Finnum, 80-82, á föstudag. Finnar eru með sterkt lið og unnu Íslendinga eftirminnilega á Eurobasket fyrr í haust. Því má búast við hörkuleik í Laugardalshöll í kvöld. Tryggvi var þó ekki í vafa um að íslenska liðið ætti möguleika á sigri. Hann sagði lykilinn að sigrinum vera baráttuna.

„Við þurfum að spila eins og við setjum leikinn upp. Eins og vanalega þá erum við „underdogs“, við erum alltaf minna liðið. Við þurfum að vinna okkur upp og vera ákveðnari en hitt liðið. Rífa niður fráköstin og skjóta eins og það sé enginn morgundagur,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×