Viðskipti erlent

Wells Fargo nær sátt vegna svikareikninga

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmenn Wells Fargo stofnuðu reikninga í nafni viðskiptavini án þess að spyrja þá.
Starfsmenn Wells Fargo stofnuðu reikninga í nafni viðskiptavini án þess að spyrja þá. Vísir/EPA
Bandaríski bankinn Wells Fargo hefur samþykkt að greiða 110 milljónir dollara til að ná sátt í hópmálsókn. Starfsmenn bankans stofnuðu allt að tvær milljónir reikninga fyrir viðskiptavini án leyfis þeirra.

Féð rennur meðal annars til þess að greiða fyrir kostnað sem viðskiptavinir urðu fyrir vegna þess að bankastarfsmenn skráðu þá fyrir reikningum eða þjónustu sem þeir höfðu ekki beðið um samkvæmt frétt AP-fréttastofunnar. Yfirvöld telja að starfsmennirnir hafi gert þetta vegna þrýstings um að selja sem mest.

Þetta er fyrsta dómsáttin sem bankinn gerir eftir að hann náði samkomulagi um að greiða alríkisyfirvöldum og yfirvöldum í Kaliforníu 185 milljónir dollara í fyrra.

Stjórn Wells Fargo segir að rannsókn sé í gangi á söluaðferðum bankans og er gert ráð fyrir að skýrsla um það birtist fyrir hluthafafund hans í apríl. Stjórnin hefur þegar samþykkt að skerða bónusgreiðslur til æðstu stjórnenda bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×