Íslenski boltinn

Ejub: Markið verður minna

Ingvi Þór Sæmundsson á Ólafsvíkurvelli skrifar
Ejub er ánægður með síðustu leiki hjá Ólsurum.
Ejub er ánægður með síðustu leiki hjá Ólsurum. vísir/anton
Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ó., kvaðst þokkalega sáttur með stigið sem hans menn fengu gegn nöfnum sínum frá Reykjavík.

„Mér fannst við eiga góðan leik fyrir utan 10-15 mínútur í lok fyrri hálfleiks. Það var góð barátta í okkar liði og leikurinn var í raun góður miðað við aðstæður. Á endanum var þetta sanngjarnt þótt við hefðum verið líklegri í restina,“ sagði Ejub eftir leik.

Ólsarar byrjuðu leikinn vel og komust yfir strax á 3. mínútu. Ejub hefði viljað sjá sína menn ganga á lagið og skora annað mark.

„Við hefðum líklega unnið leikinn hefðum við komið öðru marki á þá. En þegar þú ert í ströggli þá verður markið kannski minna og erfiðara að nýta færin,“ sagði Ejub sem er nokkuð ánægður með spilamennsku Ólsara að undanförnu þótt hún hafi ekki skilað mörgum stigum.

„Slæmi kaflinn hjá okkur kom eftir Verslunarmannahelgi, leikirnir gegn Val, ÍBV og ÍA voru hrikalegir. Ég er mjög ánægður núna, við erum allavega að berjast fyrir hlutunum,“ sagði Ejub.

„Ég vona að við getum klárað mótið af svona krafti og ef við gerum það er ég nokkuð viss um að við höldum okkur uppi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×