Innlent

Þorgerður Katrín í framboð fyrir Viðreisn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Daníel
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar í framboð fyrir Viðreisn. Þetta herma heimildir Vísis og sömuleiðis DV þar sem fullyrt er í morgun að hún muni leiða lista flokksins í Suðvesturkjördæmi í komandi kosningum.

Viðreisn mældist með tæp tíu prósent í þjóðarpúlsi Gallup á dögunum en fylgið er á pari við fylgi Framsóknarflokksins og Samfylkingar. 

Fari Þorgerður Katrín fram í Kraganum hittir hún meðal annars fyrir formann Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktsson. Á meðan Þorgerður var virk í starfi Sjálfstæðisflokksins var hún ötull Evrópusinni sem rímar vel við stefnu Viðreisnar sem vill að þjóðin kjósi um það hvort ljúka skuli viðræðum um fulla aðild að Evrópusambandinu.

Þorgerður hefur til þessa hvorki viljað neita né játa því að hún sé á leiðinni út á pólitíska sviðið sem fulltrúi Viðreisnar. Hvorki hefur náðst í hana né Benedikt Jóhannesson, formann Viðreisnar, í morgun þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×