Íslenski boltinn

Toppslagur í Grafarvoginum | Stórleikur í Garðabænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr fyrri leik FH og Fjölnis sem Fimleikafélagið vann 2-0.
Úr fyrri leik FH og Fjölnis sem Fimleikafélagið vann 2-0. vísir/anton
Fimmtánda umferð Pepsi-deildar karla hefst í kvöld með fjórum leikjum.

Í Grafarvoginum mætast Fjölnir og topplið FH. Fjölnismenn eru í 3. sæti deildarinnar með 26 stig og geta með sigri farið á toppinn, að því gefnu að Stjarnan vinni ekki KR.

Fjölnismenn fengu tækifæri til að komast á toppinn fyrir nokkrum umferðum en féllu á prófinu. Það verður því áhugavert að sjá hvernig þeim gengur gegn Íslandsmeisturunum sem töpuðu fyrir KR í síðustu umferð.

FH vann fyrri leik liðanna í Kaplakrika með tveimur mörkum gegn engu. Eftir hann fóru Fjölnismenn á mikið flug og unnu fjóra af næstu fimm leikjum sínum.

Leikur Fjölnis og FH hefst klukkan 18:00 en á sama tíma hefjast tveir aðrir leikir. ÍA og Víkingur Ó. mætast í Vesturlandsslag og Breiðablik tekur á móti botnliði Þróttar.

ÍA og Víkingur Ó. hafa mæst þrisvar sinnum í efstu deild og tölfræðin er Víkingum í vil. Þeir hafa unnið alla þessa þrjá leiki með markatölunni 9-0.

Síðast þegar þessi lið mættust á Akranesi, 18. september 2013, unnu Ólsarar 0-5. Það er eitt af þremur stærstu töpum ÍA í efstu deild frá upphafi.

Víkingur vann svo fyrri leik liðanna í ár með þremur mörkum gegn engu. Einar Hjörleifsson, markvörður Ólsara, átti stórleik í þeim leik og varði m.a. vítaspyrnu frá Garðari Gunnlaugssyni.

Liðin eru í 8. og 9. sæti deildarinnar og aðeins einu stigi munar á þeim.

Blikar hafa aðeins náð í eitt stig í síðustu tveimur leikjum sínum og þurfa nauðsynlega á sigri að halda gegn Þrótti.

Þróttarar sitja á botni deildarinnar með átta stig, níu stigum frá öruggu sæti. Þeir hafa aðeins unnið tvo sigra í sumar en annar þeirra kom gegn Blikum í 4. umferð.

Dion Acoff og Vilhjálmur Pálmason skoruðu í 2-0 sigri Þróttara sem voru einum fleiri í rúman hálfleik eftir að Arnór Sveinn Aðalsteinsson, fyrirliði Breiðabliks, fékk að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt undir lok fyrri hálfleik.

Í síðasta leik kvöldsins fá Stjörnumenn KR-inga í heimsókn.

Bæði lið koma á góðri siglingu inn í leikinn. Stjörnumenn hafa fengið 13 stig í síðustu fimm leikjum sínum á meðan KR-ingar hafa unnið þrjá af síðustu fjórum.

Stjörnumenn gætu farið á toppinn með sigri en það veltur einnig á úrslitunum í leik Fjölnis og FH.

Leikur Stjörnunnar og KR verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD. Toppslagur Fjölnis og FH verður einnig í beinni á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×