Íslenski boltinn

Lífsnauðsynlegur Leiknissigur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leiknismenn unnu loksins leik.
Leiknismenn unnu loksins leik. vísir/anton
Leiknir frá Fáskrúðsfirði vann sinn fyrsta sigur í Inkasso-deildinni síðan 24. júní þegar Fram kom í heimsókn í Fjarðabyggðarhöllina í kvöld.

Leiknum lyktaði með 3-2 sigri Leiknis sem er enn í botnsætinu en er nú aðeins þremur stigum frá öruggu sæti.

Dino Gavric kom Fram í 0-1 á 34. mínútu og þannig var staðan í hálfleik. Hilmar Freyr Bjartþórsson jafnaði metin á 56. mínútu og aðeins fimm mínútum seinna fékk Ivan Parlov, leikmaður Fram, að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Þrátt fyrir að vera manni færri kom Indriði Áki Þorláksson Fram yfir með marki úr vítaspyrnu á 82. mínútu.

Forystan entist þó aðeins í þrjár mínútur því á 85. mínútu jafnaði Hilmar Freyr metin í 2-2 með sínu öðru marki.

Það voru svo komnar fjórar mínútur fram yfir venjulegan leiktíma þegar Jesus Guerrero Suárez skoraði þriðja mark Leiknis og tryggði liðinu þrjú mikilvæg stig.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×