Íslenski boltinn

Atli Viðar: Ákveðnir að gera þetta að góðu tímabili

Ingvi Þór Sæmundsson á Norðurálsvellinum skrifar
Atli Viðar er kominn með fimm mörk í Pepsi-deildinni í sumar. Þrjú þeirra komu gegn ÍA.
Atli Viðar er kominn með fimm mörk í Pepsi-deildinni í sumar. Þrjú þeirra komu gegn ÍA. vísir/anton
Atli Viðar Björnsson kann fáar skýringar á því af hverju honum gengur svona vel að skora á móti ÍA en hann hefur nú gert sex mörk í síðustu fjórum leikjum gegn Skagamönnum.

„Ég hef enga sérstaka skýringu á þessu. Það er gaman að spila hérna og gaman að spila í góðu liði eins og FH. Þetta var hörkuleikur og við erum ánægðir að fara í burtu með þrjú stig,“ sagði Atli Viðar eftir 1-3 sigur FH á ÍA í kvöld.

Dalvíkingurinn fékk tækifæri í byrjunarliðinu í kvöld og var líklegur allt frá upphafsflautinu.

„Við sköpuðum okkur stöður og færi áður en fyrsta markið kom. Mér fannst vera tímaspursmál hvenær við myndum skora,“ sagði Atli Viðar sem viðurkennir að fyrra markið sé ekki með þeim fallegri sem hann hefur skorað á ferlinum.

„Það er rétt að þetta var ekki fallegt mark en það fallega við það er að það telur alveg jafn mikið og öll hin. Ég er ánægður með það.“

Atli Viðar kveðst ánægður með hvernig FH-ingar svöruðu tapinu fyrir Eyjamönnum í undanúrslitum Borgunarbikarsins í síðustu viku.

„Það var svekkjandi að tapa þeim leik og missa af möguleikanum á að vinna bikarinn. En það er bara búið. Við fórum í örlítið frí um Verslunarmannahelgina og komum endurnærðir til baka, ákveðnir að gera þetta að góðu tímabili,“ sagði Atli Viðar að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×