Fastir pennar

Gaman að lifa

Kristín Þorsteinsdóttir skrifar
Í dag göngum við Íslendingar að kjörborðinu og kjósum okkur forseta. Kosningabaráttan hefur aldrei komist á flug og að miklu leyti snúist um löngu liðin mál. Þorskastríðið, Icesave og jafnvel einkavæðingu bankanna.

Guðna Th. Jóhannessyni, sem varla getur annað en sigrað ef marka má kannanir, hefur ekki tekist að beina umræðunni að deginum í dag og framtíðinni. Kannski er það sagnfræðingurinn í honum sem kann ágætlega við sig í umræðu um liðna tíð. Annar frambjóðandi, Davíð Oddsson, er svo allt að því holdgervingur þessara löngu liðnu atburða.

Stemmningin á Íslandi undanfarna daga og vikur hefur verið ógleymanleg. Frammistaða íslenska knattspyrnulandsliðsins hefur sameinað þjóðina og minnt okkur öll á mikilvægi þess að njóta augnabliksins og horfa með bjartsýni til framtíðar.

Halla Tómasdóttir hefur á sama tíma tekið stór stökk í könnunum, og allt að því tuttugufaldað fylgi sitt frá því fyrstu kannanir birtust. Getur verið að Halla sé sú sem á besta og jákvæðasta samtalið við þjóðina? Röggsöm kona sem hefur greinilega gaman af því að vera til.

Kannski hafa undanfarnar vikur sýnt að hljómgrunnur er fyrir slíkt.

Sundrungin mikla

Bretar hafa ákveðið að ganga úr Evrópusambandinu. Óhætt er að segja að atburðarrásin hafi verið hröð; David Cameron forsætisráðherra tilkynnti samstundis að hann mynda segja af sér, sterlingspundið hríðféll og hefur ekki verið veikara í þrjátíu ár, alþjóðamarkaðir titruðu og bresk fyrirtæki féllu í verði um milljarða á milljarða ofan.

Bretar létu hjartað, frekar en höfuðið ráða. Aðildarsinnar voru í miklum meirihluta meðal háskólamenntaðra og í öllum stærri borgum á Bretlandseyjum; London, Edinborg, Cardiff, Bristol, Manchester og Liverpool. Öll efnahagsleg rök mæltu með áframhaldandi aðild. Það má því segja að efnaminna fólk í sveitum landsins hafi ráðið för.

Við þetta má bæta að ríflega 2/3 fólks undir 35 ára aldri vildi vera áfram í Evrópusambandinu. Þessi hlutföll snérust svo á haus hjá fólki yfir fimmtugu. Þannig tók eldra fólk með atkvæðum sínum ákvörðun um framtíð þeirra yngri. Það liggur í augum uppi að slík niðurstaða er ekki til þess fallin að skapa einingu.

Ekki er heldur auðvelt að sjá fyrir hvað tekur við. Mikill meirihluti Skota og Norður-Íra kaus að vera áfram í sambandinu. Háværar raddir eru uppi um að nú þurfi nýja sjálfstæðiskosningu í Skotlandi.

Mögulega voru úrslitin ekki bara upphafið að endalokum Evrópusambandsins eins og við þekkjum það, heldur einnig upphafið að endalokum Stóra-Bretlands. 






×