Innlent

Píratar með mest fylgi og Viðreisn sækir í sig veðrið

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Píratar að störfum á þingi.
Píratar að störfum á þingi. Vísir
Stjórnmálaflokkurinn Píratar mælist með mest fylgi meðal landsmanna í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar en frá könnuninni er greint í Morgunblaðinu í dag.

Þar segir frá því að Píratar hafi mælst með 29,9 prósent fylgi og er það 1,6 prósentustiga aukning frá síðustu könnun sem gerð var fyrir mánuði. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur næstmests fylgis eða um 22,7 prósent og er það 1,2 prósentustiga lækkun frá síðustu könnun Félagsvísindastofnunar.

Viðreisn heldur áfram að vaxa en flokkurinn mælist nú með 9,1 prósent fylgi. Það er 1,2 prósentustiga aukning milli mánaða. Flokkurinn var stofnaður formlega í lok maí. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur 15,9 prósent fylgi en það er 0,6 prósentustiga lækkun.

Framsóknarflokkurinn lækkar um sama prósentustig og mælist flokkurinn með 11,1 prósent fylgi nú. Samfylkingin stendur nánast í stað með 7,6 prósent fylgi. Björt framtíð virðist vera að þurrkast út og myndi ekki ná manni inn á þing með sín 2,9 prósent. Dögun mælist með 0,2 prósent fylgi og Alþýðufylkingin mælist með 0,1 prósent fylgi.

1.072 svöruðu könnuninni en hún fór fram í netpanel sem náði til 2000 kjósenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×