Íslenski boltinn

Bjarni: Þurfum að vera betri en andstæðingurinn og dómarinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR.
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR. vísir/stefán
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR-inga, var ánægður með sigurinn á FH í kvöld en segir of snemmt að fella stóra dóma um stöðu liðanna.

„Það er hellingur eftir af mótinu. Titilbaráttan réðst ekki hér í kvöld en það er vissulega sætt að hafa náð í þrjú stig hér í kvöld,“ sagði Bjarni.

KR-ingar unnu í kvöld sinn fyrsta sigur í kvöld eftir jafntefli í fyrstu tveimur umferðunum. Bjarni segir þó að það hefði ekki verið slæmt hefði KR ekki unnið í kvöld.

„Það fer eftir því hvernig á það er litið. Við áttum mjög fínan leik í Laugardalnum um daginn og vorum við óheppnir þar að fara bara þaðan með eitt stig.“

„Það er svo alltaf markmiðið að halda hreinu hér á heimavelli og skora 1-2 mörk. Það gekk eftir í kvöld með frábærum stuðningi margra KR-inga á vellinum í kvöld.“

Hann segir ljóst að barátta og læti hafi einkennt leikinn, í bland við erfiðar aðstæður. „Þetta var fyrst og fremst sigur liðsheildarinnar og mikillar baráttu í liðinu,“ sagði þjálfarinn.

Bjarni segir að dómgæslan hefði mátt vera betri í kvöld en það mátti sjá á honum og öðrum á hliðarlínunni KR-megin að þeir voru þar afar ósáttir við dómgæsluna á löngum köflum.

„Oft á tíðum virðist okkur að við þurfum að vera betri en bæði andstæðingurinn og dómarinn. Í dag tókst það.“

„Ákvarðanir dómara eru misjafnar á vellinum. Leikurinn er hraður og erfiður og það bitnaði á báðum liðum. En mér fannst ákvarðanirnar sem voru teknar ekkert sérlega skemmtilegar.“

„Það væri ágætt að sjá einhverja línu í leikjunum. Við erum ekki að biðja um neitt svakalega mikið. Bara að það sé viðmið sem við getum haft til að fara eftir í leikjunum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×