Íslenski boltinn

Einar: Eiginlega vonsvikinn að hafa ekki gripið vítið

Ingvi Þór Sæmundsson á Ólafsvíkurvelli skrifar
Einar átti frábæran leik í marki Víkings.
Einar átti frábæran leik í marki Víkings. vísir/anton
Einar Hjörleifsson stóð heldur betur fyrir sínu í marki Víkings Ó. í 3-0 sigrinum á ÍA í 4. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

„Ég er ofboðslega glaður og sáttur með þessi þrjú stig,“ sagði markvörðurinn þrautreyndi eftir leikinn.

Sjá einnig: 39 ára gamall sjóari og markvörður Ólsara stal senunni í kvöld | Myndband

Með sigrinum skutust Víkingar á topp Pepsi-deildarinnar og þar finnst þeim gott að vera segir Einar.

„Er ekki best að vera á toppnum? Þetta er fín tilfinning og við njótum augnabliksins og reynum að halda þessu gangandi,“ sagði Einar sem varði vítaspyrnu frá Garðari Gunnlaugssyni í seinni hálfleik. En giskaði hann á rétt horn eða las hann Garðar?

„Veistu, ég veit það ekki. Stundum fær maður bara einhverja tilfinningu. Ég fór bara þarna, ég veit ekkert hvort ég las hann en ég varði vítið,“ sagði Einar sem varði einnig frákastið frá Garðari.

„Það var meira að segja betra ef eitthvað var. Ég var eiginlega vonsvikinn að hafa ekki gripið vítið því það var svo laust,“ sagði markvörðurinn sem er þekktur vítabani.

Margir vildu meina að boltinn hafa verið inni þegar Einar varði frá Garðari í fyrri hálfleik. Hann er ekki sammála því.

„Mitt kalda og heiðarlega mat er að hann var aldrei farinn inn. Ég segi það og stend við það,“ sagði Einar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×