Íslenski boltinn

Fyrrum unglingalandsliðsmaður Króata á miðju Fjölnismanna í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Igor Jugovic.
Igor Jugovic. Mynd/Fjölnir
Fjölnismenn hafa styrkt liðið sitt fyrir átökin í Pepsi-deildinni í sumar en Grafarvogsfélagið hefur samið við króatískan miðjumann. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjölni.

Igor Jugovic er 27 ára gamall og 178 sentímetrar á hæð en hann spilar vanalega sem afturliggjandi miðjumaður.

Jugovic á að baki hundrað leiki í króatísku deildinni fyrir lið NK Zagreb, NK Istra 1961 og Slaven Belupo Koprivnica.

Hann hefur einnig spilað fyrir lið NK Celje í Slóveníu og lið Sheriff Tiraspol í Moldavíu þar sem hann var síðast.

Igor Jugovic lék á sínum tíma 30 leiki fyrir yngri landslið Króata og var um tíma fyrirliði.

Þetta eru góðar fréttir fyrir Fjölnismenn sem hafa misst marga lykilmenn að undanförnu, Bergsveinn Ólafsson fór í FH, Kennie Chopart fór í KR og Aron Sigurðarson samdi við norska félagið Tromsö.

Fjölnir hefur svarað þessu með því að fá aftur til síns makedónska miðvörðinn Daniel Ivanovski og semja við danska sóknarmiðjumanninn Martin Lund Pedersen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×