Fótbolti

Man. City missti niður forskot á heimavelli og tapaði

Tómas Þór Þóraðrson skrifar
Raheem Sterling og Patrice Evra eigast við í Manchester í kvöld.
Raheem Sterling og Patrice Evra eigast við í Manchester í kvöld. Vísir/getty
Ítalíumeistarar Juventus, sem komust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð, gerðu sér lítið fyrir og unnu efsta lið ensku úrvalsdeildarinnar, 2-1, í fyrstu leikviku Meistaradeildarinnar í kvöld.

Manchester City komst yfir í leiknum á 57. mínútu þegar Giorgio Chiellini varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Gianluigi Buffon var áður búinn að verja frábærlega í tvígang.

Eins og svo oft áður voru Evrópuleikirnir að stríða Manchester City, sem hefur byrjað fullkomlega í ensku úrvalsdeildinni og er þar á toppnum með fimmtán stig eftir fimm leiki.

Mario Mandzukic, Króatinn stóri og sterki, jafnaði metin á 70. mínútu þegar hann skilaði fyrirgjöf frá vinstri í stöngina og inn, 1-1.

Ellefu mínútum síðar kom spænski framherjinn Álvaro Morata gestunum frá Tórínó í 2-1 með fallegu skoti fyrir utan teig, en varnarleikur City-manna ekki til útflutnings þar.

Lokatölur, 1-2, og Man. City byrjar Meistaradeildina á tapi á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×