Viðskipti erlent

Verðhjöðnun í Danmörku í fyrsta skipti í 60 ár

Verhjöðnun mældist í janúar í Danmörku í fyrsta sinn síðan 1954. Verðhjöðnunin nam 0,1 prósenti. Ástæðan er fyrst og fremst talin vera lækkandi olíuverð. DR greinir frá.

Bent er á að verðhjöðnunin geti haft neikvæð áhrif á danskt efnahagslíf leiði það til þess að fólk fresti innkaupum sínum og bíði eftir því að verðlag falli frekar.

Jan Størup Nielsen, greiningaraðili hjá Nordea bankanum, segir að verðhjöðnunin komi Dönum líklega til góða svo lengi sem hún stafi af lægra orkuverði og lægri sköttum. Það auki kaupmátt danskra heimila. Það sé ekki fyrr en verðhjöðnunin verði viðvarandi og laun hætta að hækka að verðhjöðnun verði til vandræða hefur DR eftir Nielsen.

Þá er einnig bent á að laun hafi hækkað um 1,5 prósent á síðasta ári. Það sé lægsta hækkun launa frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Vegna verðhjöðnunar sé hinsvegar kaupmáttaraukningin veruleg fyrir dönsk heimili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×