Viðskipti erlent

Rússar þrengja að McDonald's

Bjarki Ármannsson skrifar
Elsta útibú McDonald's í Rússlandi á Púskín-torgi.
Elsta útibú McDonald's í Rússlandi á Púskín-torgi. Vísir/AP
Rússneska matvælaeftirlitið tilkynnti í gær að það stæði í rannsókn á veitingastöðum skyndibitakeðjunnar McDonald's í landinu. Fyrr í vikunni lét eftirlitið loka fjórum útibúum keðjunnar í Moskvu sem það sagði brjóta gegn heilbrigðisreglugerðum.

Um þessar mundir andar köldu milli Rússa og Bandaríkjamanna vegna átakanna í Austur-Úkraínu, en Rússar komu nýlega á víðtæku banni gegn innflutningi matvæla frá Vesturlöndum.

Aðgerðir yfirvalda gegn McDonald's, sem rekur 435 veitingastaði í Rússlandi, eru taldar tengjast þessum deilum stórveldanna tveggja.

Meðal þeirra veitingastaða sem lokað var í Moskvu var veitingastaðurinn á Púskín-torgi. Sá var fyrsti veitingastaður McDonald's sem opnaður var í Sovétríkjunum sálugu árið 1990. Opnunin þótti merki um breytingar og aukin samskipti við vestrið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×