Viðskipti erlent

Google ver 5,7 milljörðum í að kenna stúlkum forritun

Bjarki Ármannsson skrifar
Google hefur hrint af stað verkefninu Made with Code til að vekja áhuga ungra stúlkna á forritun.
Google hefur hrint af stað verkefninu Made with Code til að vekja áhuga ungra stúlkna á forritun. Vísir/AFP/AFP
Netrisinn Google hrinti í gær af stað verkefninu Made with code sem hefur það að markmiði að kenna ungum stúlkum forritun. Fyrirtækið hefur áður heitið því að gera allt sem í valdi þess stendur til þess að fjölga konum í Kísildal, en um 5,7 milljörðum íslenskra króna er varið til verkefnisins.

Frá þessu er greint á vef tímaritsins TIME. Google tilkynnti í síðasta mánuði að aðeins sautján prósent allra starfsmanna þeirra á tæknisviði eru konur. Þetta vandamál nær til fleiri fyrirtækja en Google, en talið er að árið 2020 verði 1,4 milljónir lausra starfa í boði fyrir tölvunarfræðinga í Bandaríkjunum. Hinsvegar verði aðeins um fjögur hundruð þúsund menntaðir tölvunarfræðingar til að sinna þeim.

Þetta vandamál er meðal annars tilkomið vegna þess að mjög fáar konur sækja í þessi störf. Einungis um tólf prósent útskrifaðra tölvunarfræðinga í Bandaríkjunum eru konur. Made with code, vefsíða sem inniheldur meðal annars kóðunaræfingar og sögur kvenna sem starfa á tæknideildum, miðar að því að auka þetta hlutfall.

Vefsíðunni er fyrst og fremst ætlað að höfða til ungra stúlkna en rannsóknir Google segja að flestar konur ákveði hvort þær hafi áhuga á því að læra að forrita fyrir tvítugt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×