Golf

Jimenez sigraði á Opna spænska meistaramótinu

Jimenez fagnaði sigrinum á sinn einstaka hátt.
Jimenez fagnaði sigrinum á sinn einstaka hátt. Getty
Spánverjinn Miguel Angel Jimenez sigraði á Opna spænska meistaramótinu í golfi sem fram fór um helgina en sigurinn er númer 21 hjá Jimenez á Evrópumótaröðinni. Hann lék hringina fjóra á PGA Catalunya vellinum á 284 höggum eða fjórum höggum undir pari. Það gerðu þeir Richard Green frá Ástralíu og Thomas Pieters frá Belgíu einnig og því þurfti að grípa til bráðabana. Á fyrstu holu í bráðabananum fengu Pieters og Green báðir skolla meðan að Jimenez fékk öruggt par og sigurinn var því hans.

Jimenez hafði tekið þátt í Opna spænska meistaramótinu 26 sinum án þess að sigra og það sást greinilega í gær hvað sigurinn á sínu heimamóti á Evrópumótaröðinni var honum kær. Þá bætti hann sitt eigið met með að vera elsti kylfingur í sögunni til þess að vinna mót á Evrópumótaröðinni en hann er 50 ára og 133 daga gamall.

Jimenez er uppáhalds kylfingur margra golfáhugamanna víða um heim en spurður eftir sigurinn út í hvernig hann færi að því að sigra reglulega atvinnugolfmót meðal þeirra bestu á þessum aldri stóð ekki á svörum. „Ég borða einfaldlega góðan mat, drekk gott rauðvín, reyki góða vindla og hreyfi mig mikið.“

Næsta mót á Evrópumótaröðinni er BMW PGA meistaramótið á Wentworth vellinum í Englandi en mótið er eitt það stærsta á mótaröðinni ár hvert. Þar mæta allir bestu kylfingar Evrópu og fleiri til en sýnt verður beint frá því á Golfstöðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×