Tónlist

Kúbverskur saltfiskréttur Tómasar vakti lukku

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Birkir Blær, starfsmaður á Hótel Eddu að Laugum í Sælingsdal.
Birkir Blær, starfsmaður á Hótel Eddu að Laugum í Sælingsdal.
Margir af fremstu tónlistarmönnum landsins hafa að undanförnu lagt leið sína á Hótel Eddu að Laugum í Sælingsdal og spilað fyrir gesti hótelsins og heimamenn.

Segja má að hótelið hafi markað sér nokkra sérstöðu að þessu leyti og má upphafið rekja til þess að Tómas R. Einarsson, sem á rætur sínar að rekja til Dalasýslu, flutti verk sitt Streng í Gyllta salnum á hótelinu, en verkið tileinkar hann æskustöðvunum.

Auk þess að spila koma tónlistarmennirnir gjarnan með uppáhalds uppskriftina sína sem matreiðslumaðurinn á hótelinu eldar. Tónleikagestir geta síðan gætt sér á herlegheitunum á meðan á tónleikunum stendur

„Til dæmis bauð Tómas upp á kúbverskan saltfiskrétt sem vakti mikla lukku,“ segir Birkir Blær, starfsmaður á hótelinu.

Auk Tómasar hafa listamennirnir Ellen Kristjánsdóttir, Eyþór Gunnarsson, Ife Tolentino og bræðurnir Óskar og Ómar Guðjónssynir leikið fyrir gesti hótelsins. Í þessari viku spiluðu Skúli Mennski og einnig komu Steindór Andersen og Kjartan Sveinsson úr Sigur Rós og kváðu rímur.



Tómas R. Einarsson Tómas er kontrabassaleikari og tónskáld sem hefur ferðast víða um lönd og álfur, meðal annars til þess að flytja og semja tónlist. Hann hefur gefið út hátt á annan tug diska og hlotið fjölda viðurkenninga og lof gagnrýnenda fyrir.
Hótelið er einnig eftirtektarvert fyrir þær sakir að stór hluti starfsfólksins er tónlistarfólk. Það kemur því fyrir að starfsmennirnir slá upp tónleikum eða stíga á stokk ásamt listamönnunum sem heimsækja hótelið.

„Ætli þetta sé ekki menningarlegasta hótelið,“ segir Birkir Blær.

„Mér finnst frekar skemmtileg pæling að reka hótel og manna stöður með tónlistarfólki. Það vekur alltaf lukku þegar starfsmaður sem er kannski nýbúinn að skúra gólfin vippar sér úr þjónagallanum, tekur upp t.d. harmonikku og flytur nokkur lög,“ segir Birkir Blær að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×