Viðskipti erlent

Honda eykur hagnað um 46%

Finnur Thorlacius skrifar
Honda Civic.
Honda Civic.
Mjög góð sala Honda bíla í Bandaríkjunum hefur stóraukið hagnað fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi ársins og nam hann 149 milljörðum króna. Honda er fimmti stærsti bílaframleiðandinn í Bandaríkjunum og seldi 413.434 bíla aðeins á þessum 3 mánuðum, þ.e. frá júlí til september þar.

Var sala Honda 13% meiri en árið á undan. Honda Civic seldist eins og heitar lummur, enda er sá bíll sá söluhæsti í flokki smærri bíla þar vestra. Honda Accord seldist einnig vel og jókst sala hans um 14% milli ára.

Afslættir af Honda bílum voru 30% minni heldur en árið 2012 og á það einnig stóran hlut í auknum hagnaði. Honda gaf minnstan afslátt af bílum sínum, frá auglýstu verði, af öllum 6 söluhæstu bílafyrirtækjum sem selja bíla í Bandaríkjunum.

Honda ætlar að selja 6 milljón bíla árið 2017 og hefur fjárfest mikið til að það megi ganga eftir. Yrði það mikið stökk frá 4,01 milljón bíla sölu ársins 2012. Honda gengur einnig vel í heimalandi sínu Japan og var söluaukningin 40% á þriðja ársfjórðungi.

Lækkun japanska yensins hefur hjálpað Honda mikið eins og reyndar öllum japönsku framleiðendunum sem sjá nú bjarta tíma eftir erfið ár þar sem yenið steig í hæstu hæðir.  







Fleiri fréttir

Sjá meira


×