Viðskipti erlent

Rússar taka skip Greenpeace

Skip Greenpeace, Arctic Sunrise.
Skip Greenpeace, Arctic Sunrise. Mynd/Greenpeace.
Vopnaðir rússneskir strandgæsluliðar réðust í dag um borð í skip Greenpeace-samtakanna, sem var að hringsóla við olíuborpall á vegum Gazprom í suðaustanverðu Barentshafi. Rússar höfðu áður handtekið tvo Grænfriðunga sem klifruðu upp á síðu pallsins. Hafði utanríkisráðuneyti Rússlands sent frá sér yfirlýsingu þar sem aðgerðum Greenpeace var lýst sem ögrandi og ógnandi, þær gætu haft alvarlegar afleiðingar og stefnt mannslífum í hættu.

Greenpeace sagði að  strandgæsluliðarnir hefðu sigið úr þyrlu um borð í skip samtakanna, Arctic Sunrise. Þau skilaboð hefðu borist frá skipinu, rétt áður en sambandið rofnaði, að meðlimir samtakanna væru í haldi um borð, þeim hefði verið skipað að vera á hnjánum og vélbyssum væri beint að þeim.

Talsmaður Greenpeace sagði svo harkalegar aðgerðir í engu samræmi við friðsamleg mótmæli samtakanna, en þau beinast gegn vaxandi olíuvinnslu á Norðurslóðum. Skoraði hann á Pútín forseta að hemja strandgæsluna og láta hana slíðra vopn sín. Krafðist hann þess að skipið og 29 manna áhöfn þess yrðu þegar í stað látin laus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×