Viðskipti erlent

Orkurisi sektaður um nær 50 milljarða fyrir mútugreiðslur

Franski orkurisinn Total hefur verið sektaður um tæplega 400 milljónir dollara eða tæplega 50 milljarða kr. í Bandaríkjunum fyrir mútugreiðslur. Greiðslur þessar fóru til ráðamanna í Íran í skiptum fyrir leyfi til olíuborana þar í landi.

Fjallað er um málið á vefsíðunni CNNmoney. Þar segir að fyrir utan sektirnar í Bandaríkjunum vofir glæparannsókn, og réttarhöld, yfir Total í Frakklandi heimalandi félagsins.

Sektirnar í Bandaríkjunum greiðir Total annarsvegar til dómsmálaráðuneytis landsins eða 245 milljónir dollara og hinsvegar til fjármálaeftirlitsins eða 153 milljónir dollara.

Í fréttinni segir að rannsóknin á þessu máli var unnin í samvinnu bandarískra og franskra yfirvalda. Fram kemur að alls námu mútugreiðslurnar 60 milljónum dollara á árunum 1995 til 2004. Total mun hafa hagnast um 150 milljónir dollara í framhaldinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×