Viðskipti erlent

Dómsdags fjárfestar veðja á stórt markaðshrun

Hlutabréf hafa hækkað svo mikið í verði það sem af er þessu ári að fjárfestar eru í auknum mæli farnir að veðja á að markaðurinn hrynji og það í stórum stíl.

Fjallað er um málið á vefsíðu CNNMoney. Þar er m.a. fjallað um Universa Investments sem eyðir hundruðum milljóna dollara á hverju ári í að kaupa hruntryggingar. Fjárfestar hafa flykkst til Universa á fyrsta ársfjórðungi ársins.

Mark Spitznagel forstjóri Universa segir að fólk sé farið að átta sig á því að hreyfingar á markaðinum séu ónáttúrulegar og villandi. Hann telur að hrun sé framundan en í augnablikinu sé ódýrt að kaupa hruntryggingar því það séu ekki margir sem eru á þessari skoðun.

Hruntryggingar Universa eru í formi afleiða sem gefa af sér gríðarlegan hagnað ef markaðurinn hrynur um 20% eða meira. Nassim Taleb einn af ráðgjöfum Universa, og fyrrum afleiðusali, kallar þessar hruntryggingar eða vogunarstöður „svarta svaninn“. Svartur svanur komi upp þegar atburðir gerast eins og fjármálahrunið 2008 og kjarnorkuslysið í Japan 2011.

Spitznagel er viss um að 20% markaðshrun muni gerst á næsta hálfa til heila árinu. Hann segir að hrunið á hlutabréfamarkaðinum í Japan í vikunni sé forsmekkurinn að því sem koma skal.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×