Viðskipti erlent

Grænar tölur vestan og austan hafs en rauðar á Íslandi

Helstu vísitölur á Wall Street hafa hækkað töluvert eftir að markaðir voru opnaðir þar fyrir stundu. Þessar hækkanir koma í kjölfar hækkana á Evrópumörkuðum. Hér heima eru hinsvegar rauðar tölur í gangi í Kauphöllinni.

Dow Jones vísitalan hefur hækkað um 1%, Nasdaq um 1,2% og S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 1,1%. Það sem veldur þessum hækkunum eru góðar efnahagstölur í Bandaríkjunum. T.d. hækkaði væntingavísitala neytenda þar í landi í rúm 76 stig í maí og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar árið 2008. Hækkunin var töluvert umfram spár sérfræðinga.

Í Kauphöllinni hefur úrvalsvísitalan hinsvegar haldið áfram að lækka eftir hádegið eða um 0,7% það sem af er deginum. Mest hafa hlutir í Reginn lækkað eða um tæplega 2,8% og Marel eða um 1,1%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×