Viðskipti erlent

Eign Björgólfs Thors í Actavis jókst um 7 milljarða

Hlutir í samheitalyfjafyrirtækinu Actavis hækkuðu á markaðinum í New York um 11,7% á föstudaginn var. Þar með jókst eign Björgólfs Thors Björgólfssonar í Actavis um 7 milljarða króna en eignarhlutur hans nam 60 milljörðum kr. fyrir hækkunina.

Ástæðan fyrir því að hlutir í Actavis ruku upp var tilkynning um að fyrirtækið ætti í samningaviðræðum um kaup á lyfjafyrirtækinu Warner Chilcott Plc. Hlutir í Warner hækkuðu um 23% eftir þá tilkynningu.

Í frétt um málið á Reuters kemur fram að Warner Chilcott, sem er með höfuðstöðvar í Dublin á Írlandi, hafi leitað að kaupenda í rúmt ár en verðmæti þess er talið nema um 3,8 milljörðum dollara.

Samningaviðræður Actavis og Warner eru á frumstigi en sérfræðingar telja að sameining þessara tveggja fyrirtækja sé skynsamur kostur fyrir þau bæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×