Viðskipti erlent

Danmörk þrútin af svörtum 1.000 króna seðlum

Danskir 1.000 króna seðlar mynda nær helming þess seðlamagns sem er í umferð í landinu. Sérfræðingar segja þetta merki um glæpahagkerfi í landinu og mikla svarta atvinnustarfsemi.

Fjallað er um málið í fríblaðinu Metroxpress. Þar segir að samkvæmt upplýsingum frá seðlabanka Danmerkur samsvarar seðlamagn í umferð í landinu rúmlega 65 milljörðum danskra kr. Af þessari upphæð eru rúmlega 32 milljarðar danskra kr. í 1.000 króna seðlum.

Fjármálasérfræðingurinn John Norden segir í samtali við blaðið að hann telji að þetta mikla magn af 1.000 króna seðlum, sem sjaldan komi almennt í umferð, sé notað í glæpastarfsemi og svartri atvinnu.

Lögreglan í Kaupmannahöfn staðfestir þessa skoðun Norden og segir að þegar hún leggi hald á reiðufé hjá glæpamönnum sé það yfirleitt í 1.000 króna seðlabúntum. „Þeir sem standa í fíkniefnaviðskiptum vilja ekki hafa litla seðla eða mynt í fórum sínum. Þeir vilja heldur skipta slíku í stærri seðla,“ segir lögreglustjórinn Steffen Steffensen í samtali við blaðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×