Viðskipti erlent

Bílasala eykst í Evrópu í fyrsta sinn síðan 2011

Sala á nýjum bílum í Evrópu jókst um 1,8% milli ára í apríl s.l. Þetta er í fyrsta sinn síðan haustið 2011, eða undanfarna 18 mánuði, sem slíkt gerist.

Í frétt um málið á vefsíðu BBC segir að samtals hafi rétt rúmlega milljón nýir bílar selst í Evrópu í apríl. Þrátt fyrir þessa aukningu milli ára var bílasalan í mánuðinum sú þriðja minnsta í apríl frá því að farið var að skrá hana.

Það er einkum aukning á bílasölunni á Bretlandseyjum sem veldur fyrrgreindum viðsnúningi en þar jókst hún um 15% milli ára.

Eftirspurn eftir nýjum bílum í Evrópu í fyrra var sú minnsta undanfarin 17 ár enda hefur viðvarandi efnahagskreppa hrjáð mörg lönd í álfunni á undanförnum árum. Sú þróun hélt áfram á fyrstu fjórum mánuðum þessa ár en þá minnkaði salan um 7% miðað við sama tímabil í fyrra.

Fyrir utan Bretlandseyjar var einnig góð aukning í bílasölunni á Spáni en hún jókst um tæp 11% milli ára í apríl og í Þýskalandi jókst hún um tæp 4%. Í Frakklandi dróst bílasalan saman um 5,3% og á Ítalíu um tæp 11%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×