Viðskipti erlent

Krugman og Rehn deila hart um gildi aðhaldsaðgerða í Evrópu

Paul Krugman Nóbelsverðlaunahafi í hagfræði hefur átt í deilu við Olle Rehn efnahagsstjóra Evrópusambandsins um nokkurt skeið. Deilan snýst um hvort aðhaldsaðgerðir landa innan sambandsins í kreppunni hafi virkað eða ekki.

Það er heldur betur farið að hitna í kolunum í þessari deilu þeirra Krugmans og Rehn. Krugman telur að reynslan undanfarin fimm ár sýni að aðhaldsaðgerðir í kreppu dugi ekki og hafi aðeins gert illt verra í Evrópu. Frekar eigi stjórnvöld að spýta í lófana og fara í auknar framkvæmdir til að keyra upp hagkerfið að nýju.

Rehn er þessu algerlega ósammála og segir að hið opinbera hafi einfaldlega ekkert fé aflögu til að fara að ráðum Krugmans.

Í umfjöllun um málið á CNNMoney segir að Krugman hafi líkt skoðunum Rehn við kakkalakkahugmyndir. Það er að segja þær skjóti ætíð aftur upp kollinum sama hvað gert er til að eyða þeim. Krugman bætir því við að þessar hugmyndir séu yfirleitt fastar í huga þeirra sem hafa ekki staðreyndirnar á hreinu.

Olli Rehn hefur svarað fyrir sig af fullum krafti og segir að málflutningur Krugman sé rugl. Þar að auki lét hann hafa eftir sér í Helsinki Sanomat, stærsta dagblaði Finnlands, orð sem túlka má sem svo að hann saki Krugman um lygar í málflutningi sínum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×