Viðskipti erlent

Danmörk eina landið í ESB sem selur meiri orku en það kaupir

Danmörk er eina landið innan Evrópusambandsins sem selur meiri orku til annarra landa en keypt er til notkunar innanlands.

Þetta sýna nýjar tölur frá Eurostat hagstofu Evrópusambandsins um hve einstaka lönd innan þess þurfi að kaupa mikið af orku frá öðrum löndum.

Malta er það land sem er mest háð orkukaupum en Malta þarf að kaupa alla þá orku sem notuð er á eyjunni. Næst á eftir kemur Lúxemborg sem þarf að kaupa 97% af orkunotkun sinni frá öðrum löndum. Kýpur kaupir 93% af sinni orku og Írland kaupir 89%.

Meðaltalið fyrir öll lönd Evrópusambandsins er 54% en úttekt Eurostat nær til áranna 2008 til 2011.

Hvað Danmörk varðar selur landið frá sér 9% meira af orku en það kaupir inn frá öðrum löndum. Hér munar mest um vindmyllur ásamt olíu- og gasvinnslu Dana í Norðursjó.

Fram kemur í úttektinni að 23 af 27 löndum Evrópusambands hafa dregið úr orkunotkun sinni á fyrrgreindu tímabili. Mestu orkunotendurnir eru Þýskaland, Frakkland, Stóra-Bretland, Spánn og Ítalíu en um 66% af allri orkunotkun innan sambandsins er í þessum fimm löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×