Viðskipti erlent

Fjármálaeftirlit Dana kærir alla yfirstjórn Amagerbankans

Fjármálaeftirlit Danmerkur hefur kært fyrrum bankastjóra Amagerbankans og alla yfirstjórn bankans, alls 11 manns, til efnahagsbrotadeildar lögreglunnar þar í landi.

Málið snýst um spákaupmennsku með svissneska franka á árunum 2009 og 2010. Þessi viðskipti voru síðan m.a. þess valdandi að Amagerbankinn varð gjaldþrota árið 2011 sem kostaði danska skattgreiðendur milljarða danskra króna.

Í frétt um málið í Berlingske Tidende segir meðal annars að Amagerbankinn horfði fram á mikið tap af óvarlegum lánum til þriggja manna sem stunduðu umfangsmikil fasteignaviðskipti í Danmörku fyrir hrunið 2008.

Til að reyna að lágmarka tapið ákvað stjórn bankans að veita þessum einstaklingum lánalínu upp á einn og hálfan milljarð danskra króna eða nærri 35 milljarða króna. Lánin voru notuð til að braska með svissneska franka á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum.

Fram kemur í fréttinni að lánalína þessi var framlengd ítrekað þrátt fyrir að löngu væri ljóst að bankinn myndi tapa æ hærri fjárhæðum á henni. Í lokin nam tap bankans af þessu braski um 400 milljónum danskra króna eða hátt í 9 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×