Viðskipti erlent

Forstjóri Rio Tinto hættir

Magnús Halldórsson skrifar
Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto, sést hér veita íslenskum blaðamönnum viðtal er hann kom hingað til lands í desember 2010.
Tom Albanese, forstjóri Rio Tinto, sést hér veita íslenskum blaðamönnum viðtal er hann kom hingað til lands í desember 2010.
Forstjóri Rio Tinto, á heimsvísu, Tom Albanese, hefur sagt upp störfum, en ástæðan er sögð vera gríðarlega mikið tap á fjárfestingum Rio Tinto í kola- og áliðnaði í Mósambik, ásamt tapi af yfirtöku á Alcan. Rio Tinto rekur m.a. álverið í Straumsvík undir merkjum Rio Tinto Alcan.

Fyrrnefnt tap er sagt vera um 14 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega 1.820 milljörðum króna, og verður fjárhæðin afskrifuð úr reikningum félagsins. Tapið er einnig rakið til yfirtökunnar á Alcan árið 2007, en hún kostaði fyrirtækið 38 milljarða dala, eða sem nemur tæplega 5.000 milljörðum króna, og hefur það reynst vera alltof hátt verð. Á síðasta ári afskrifaði félagið 8,9 milljarða dala vegna fjárfestinga í áliðnaði, eða sem nemur ríflega 1.100 milljörðum króna.

Frá þessu greindi Reuters-fréttaveitan í morgun. Eftirmaður Albanese verður Sam Walsh, sem stýrt hefur járngrýtisvinnslu Rio Tinto um árabil, en samstarfsmaður Albanese, Doug Ritchie, sem stýrði fjárfestingum Rio Tinto í Mósambik, hefur einnig hætt störfum fyrir Rio Tinto.

Tom Albanese hefur m.a. komið hingað til lands, og veitt viðtöl, er hann var að heimsækja starfsemi Rio Tinto í Straumsvík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×