Viðskipti erlent

Engir vextir í boði á innlánsreikningum í dönskum bönkum

Gífurlegur sparnaður Dana á undanförnum árum hefur leitt til þess að að fjöldi banka býður þeim aðeins upp á enga, eða núllvexti, á innlánsreikningum sínum.

Fjallað er um þetta mál á vefsíðu börsen. Þar segir að sparnaður Dana hafi aldrei verið meiri í sögunni og þar með hafa innistæður þeirra í dönskum bönkum aldrei verið meiri.

Fréttastofan hefur áður fjallað um þennan sparnað en innistæður danskra heimila í bankakerfinu þarlendis nema nú um 800 milljörðum danskra króna eða nær 18.000 milljörðum króna.

Í börsen segir að það séu bæði stórir og smáir bankar sem bjóði viðskiptavinum sínum upp á enga eða núllvexti af innistæðum sínum. Af þeim bönkum sem hér um ræðir má nefna Danske Bank, Nordea, Jyske Bank og sparisjóðinn í Faaborg.

Börsen segir að alls séu 39 bankar í Danmörku sem greiða enga vexti á innistæður viðskiptavina sinna upp að 20 þúsund dönskum krónum eða hátt í hálfa milljón króna. Þeir sem eiga ekki meira á reikningi sínum eru því að tapa 2,5% af innistæðu sinni árlega ef verðbólgan er tekin með í reikninginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×