Viðskipti erlent

Skuldakreppan skekur evrulöndin

Margir binda vonir við að Seðlabanki Evrópu ýti undir hagvöxt á evrusvæðinu á næstunni.NordicPhotos/AFP
Margir binda vonir við að Seðlabanki Evrópu ýti undir hagvöxt á evrusvæðinu á næstunni.NordicPhotos/AFP
Hagkerfi evrusvæðisins dróst saman um 0,2% á öðrum ársfjórðungi þessa árs miðað við þann fyrsta. Örlítið meiri kraftur var í þýska og franska hagkerfinu en búist hafði verið við en landsframleiðsla í Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Finnlandi dróst nokkuð saman.

Rétt eins og á evrusvæðinu dróst hagkerfi Evrópusambandsins (ESB) saman um 0,2% miðað við ársfjórðunginn á undan. Þátttakendur í evrunni eru sautján af 27 ríkjum ESB. Þetta leiða bráðabirgðatölur Eurostat, hagstofu ESB, í ljós.

Til samanburðar var 0,4% hagvöxtur í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi og á sama tímabili var 0,3% hagvöxtur í Japan. Hagstofa Íslands mun í september birta tölur yfir landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi.

Aukin fjárfesting og einkaneysla voru aflvakar hagvaxtarins í Þýskalandi sem mældist 0,3% á öðrum ársfjórðungi en spár höfðu bent til 0,1% vaxtar. Búist hafði verið við samdrætti í Frakklandi á ársfjórðungnum en í reynd stóð stærð hagkerfisins í stað. Þá var 0,2% hagvöxtur í Hollandi sem var jafnframt nokkru meira en spár höfðu gert ráð fyrir.

Þrátt fyrir meiri þrótt í hagkerfum Þýskalands, Frakklands og Hollands telja sumir hagfræðingar nýju hagtölurnar benda til þess að skuldakreppan í Suður-Evrópu sé að læsa klónum í sum ríkja Norður-Evrópu. Til marks um það skrapp finnska hagkerfið saman um 1,0% á öðrum ársfjórðungi.

Niðursveiflan í Grikklandi sýnir enn ekki merki þess að vera að ganga niður en þar í landi mældist samdráttur 6,2% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi. Þá var neikvæður hagvöxtur á Ítalíu og á Spáni upp á 2,5% og 1,0% á ársgrundvelli í hvoru landinu fyrir sig.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×