Viðskipti erlent

Fjöldi danskra flugliða segir upp störfum hjá SAS

Töluverður fjöldi danskra flugliða hjá SAS flugfélaginu hefur sagt upp störfum sínum eftir að verkalýðsfélag þeirra féllst á kjaraskerðingar í upphafi vikunnar.

Fjallað er um málið í börsen en þar segir að á síðustu þremur dögum hafi 73 danskir flugliðar, það er flugfreyjur og þjónar, sagt upp störfum sínum hjá SAS. Þar að auki búast forráðamenn verkalýðsfélags þeirra við að þessum uppsögnum fari fjölgandi í náinni framtíð.

Börsen ræðir við Jean Pierre Schomburg varaformann verkalýðsfélagsins um þessar uppsagnir. Hann segir að þeir tæplega 1.400 flugliðar sem tilheyra félaginu muni lenda í miklum erfiðleikum með að stemma af persónulegt líf sitt og starfið.

Þar á hann við að í samkomulaginu, fyrir utan launalækkanir, var samþykkt að auka virkan vinnutíma flugliðanna úr 42 tímum á viku upp í 47,5 tíma, gera það mögulegt að flugliðar vinni allt 13 tíma á dag og hækka ellilífeyrisaldurinn úr 60 árum og í 65 ár.

Schomburg segir að dönsku flugliðanir hafi blendnar tilfinningar í garð SAS. Þeir eru ánægðir með að flugfélagið lifi af hremmingar sínar. En þeir eru ósáttir við að félagið þvingaði þá til að taka á sig kjaraskerðingarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×