Viðskipti erlent

Um 10% danskra heimila eru í greiðsluvandræðum

Dönsk heimili eiga í sívaxandi erfiðleikum með að láta endana ná saman um hver mánaðarmót. Þetta sýnir ný úttekt á vegum dönsku hagstofunnar.

Fram kemur í þessari úttekt, sem nær yfir síðasta ár, að 280 þúsund heimili í Danmörku eiga ekki lengur fyrir reikningum sínum um hver mánaðarmót. Þetta samsvarar 10% af öllum heimilum í landinu.

Þessi staða hefur hríðversnað frá því að fjármálakreppan skall á. Í samsvarandi könnun sem hagstofan gerði árið 2007 voru 180.000 dönsk heimili í greiðsluvandræðum. Þeim hefur því fjölgað um 80.000 á þessu tímabili.

Í frétt um málið í Jyllands Posten er rætt við Lone Kæjrgaarde aðalhagfræðing hjá Arbejdernes Landsbank. Hún bendir á að úttekt hagstofunnar nái til ársins í fyrra og að hagtölur í Danmörku í ár sýni að staðan sé í raun orðin verri.

Það eru einkum húsnæðislán sem dönsk heimili eiga í vandræðum með. Fasteignaverð í Danmörku hrundi í kjölfar kreppunnar eins og víða í Evrópu og hefur lítt náð sér á strik síðan. Lone segir að þessi þróun samhliða því að atvinnuleysi hefur ekki minnkað skýri slæma stöðu margra danskra heimila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×