Viðskipti erlent

Saudiarabar skrúfa frá olíukrönum sínum til að lækka olíuverðið

Saudiarabar ætla sér að skrúfa enn frekar frá olíukrönum sínum til þess að lækka heimsmarkaðsverð á olíu. Þeir telja að verðið sé of hátt og vilja að það lækki niður í um 100 dollara á tunnuna.

Fjallað er um málið í Financial Times en þar er haft eftir ónafngreindum háttsettum embættismanni í olíumálaráðuneyti Saudi Arabíu að þeir séu nú þegar að semja við olíuhreinsistöðvar um að láta þær fá meiri olíu frá sér.

Olíuframleiðsla Saudi Arabíu er nú um 10 milljónir tunna á dag og hefur ekki verið meiri undanfarin 30 ár.

Verðið á Brentolíunni hefur lækkað verulega síðstu tvo daga og er komið niður í rúma 111 dollara á tunnuna. Fyrir helgi fór verðið hinsvegar í rúma 117 dollara og hefur því lækkað um hátt í 6% síðan þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×