Viðskipti erlent

Lumia 920 lofað í hástert

Gagnrýnendur hafa tekið nýjasta snjallsíma Nokia, Lumia 920, með opnum örmum. Það er einróma álit sérfræðinga að finnski raftækjaframleiðandinn eigi nú loks möguleika á að ryðja sér til rúms á snjallsímamarkaðinum.

Lumia 920 þykir afar myndarlegt raftæki. Snjallsíminn er gerður úr heilsteyptu plexi. Snertiskjárinn er 4.5 tommur og þykir afar skýr og þægilegur í notkun.

Þá virðast gagnrýnendur vera heillaðir af myndavél símans en hún er 8.7 megapixlar og er knúinn af PureView tækninni sem Nokia hefur haft í þróun síðustu misseri.

Lumia 920 er knúinn af Windows Phone 8 stýrikerfinu en notendaviðmót þess og hraði hafa hlotið mikið lof.

Þá er snjallsíminn sá fyrsti sinnar tegundar sem styður þráðlausa hleðslu.

En stýrikerfið er einmitt helsta vandamál Nokia. Ólíkt Android og iOS stýrikerfum Apple og Google þá hefur Windows Phone 8 ekki náð að heilla hugbúnaðarframleiðendur. Þannig eru mun færri smáforrit, eða öpp, fáanleg fyrir Windows Phone stýrikerfið.

Hægt er að sjá kynningu á Lumia 920 hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×