Viðskipti erlent

Seðlabanki Evrópu ætlar að láta til sín taka

Magnús Halldórsson skrifar
Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu.
Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu.
Seðlabanki Evrópu hyggst reyna allt hvað hann getur til þess að örva efnahagslíf álfunnar, draga úr atvinnuleysi og snúa vörn í sókn. Fyrst og fremst er horft til þess að Seðlabankinn kaupi ríkisskuldabréf skuldugra ríkja álfunnar, sem glíma við hátt vaxtaálag á skuldir sínar á markaði. Þetta háa álag, einkum á þjóðir Suður-Evrópu, gerir ríkissjóðum landanna erfitt um vik við endurfjármögnun skulda.

Mario Draghi, seðlabankastjóri Evrópu, greindi frá því að dag að bankinn myndi láta til sín taka á markaði ef þörf væri á. Sérfræðingar bankans telja að hagvöxtur í Evrópu verði neikvæður um 0,4 prósent á þessu ári en verði jákvæður um 0,5 prósent á næsta ári. Stýrivöxtum bankans, upp á 0,75 prósent, var haldið óbreyttum að ákvörðunin var kynnt í morgun á vaxtaákvörðunarfundi bankans.

Sérfræðingar bankans gera ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 2,6 prósent á næsta ári, en verðbólgumarkmið bankans er tvö prósent.

Atvinnuleysi í Evrópu er hátt, en að meðaltali mælist það 11,3 prósent samkvæmt mælingum hagstofu Evrópu, Eurostat. Það hefur verið að aukast undanfarnar vikur og mánuði, ekki síst í Grikklandi, á Spáni, Ítalíu og í Portúgal, en þessi ríki glími öll við mikinn slaga í hagkerfum sínum og mikið atvinnuleysi. Það mælist nú tæplega 25 prósent í Grikklandi og á Spáni.

Sjá má frétt breska ríkisútvarpsins BBC, um þessi mál, hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×