Viðskipti erlent

Kaup Facebook á Instagram staðfest

Alríkisráð viðskiptamála í Bandaríkjunum hefur samþykkt kaup Facebook á smáforritinu Instagram. Tilkynnt var um kaupin fyrir rúmlega fjórum mánuðum og var kaupverðið metið á einn milljarð dala. Nú er hins vegar ljóst að upphæðin er mun minni eða 747 milljónir dollara, eða það sem nemur 89 milljörðum íslenskra króna.

Upphaflega kaupverðið var byggt á gengi bréfa Facebook á þeim tíma eða 30 dollurum á hlut. Síðan þá hefur gengið verið í frjálsu falli og stendur nú í 19.44 dölum.

Eigendur Instagram munu fá 300 milljónir dollara í reiðufé fyrir sinn hlut eða 35 milljarða króna ásamt 447 milljónum dala í formi hlutabréfa í Facebook.

Ráðið samþykkti kaupin einróma og nú fyrst geta samskiptamiðlarnir tveir farið að samþætta starfsemi sína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×