Viðskipti erlent

Lögbannskrafa á hendur Samsung tekin fyrir í desember

mynd/AP
Krafa Apple, um að nokkrir snjallsímar raftækjafyrirtækisins Samsung verði teknir af markaði í Bandaríkjunum, verður tekin fyrir af dómstólum í desember á þessu ári. Upphaflega var áætlað að krafan yrði tekin fyrir í næsta mánuði.

Samsung var sektað í síðustu viku fyrir að hafa brotið á lögum um hugverkavernd og nýtt sér hönnun og hugbúnað sem Apple hefði einkaleyfi á. Var fyrirtækinu gert að greiða milljarða dala, eða það sem nemur rúmlega 122 milljarða íslenskra króna. Eftir að dómurinn var kveðinn upp fór Apple fram á að snjallsímar Samsung yrðu bannaðir í Bandaríkjunum.

Samsung Galaxy S3.mynd/AFP
Dómsúrskurðurinn hefur nú þegar haft mikil áhrif á Samsung. Markaðsvirði fyrirtækisins lækkaði um 12 milljarða dollara — 1.466 milljarða króna — þegar viðskiptamarkaðir opnuðu á mánudaginn. Ákvörðunin um að fresta lögbannskröfu Apple hefur aftur á móti haft jákvæð áhrif á gengi bréfa Samsung en þau hækkuðu um þrjú prósent í dag.

Apple hefur farið fram á að átta snjallsímar Samsung verði bannaðir í Bandaríkjunum. Þeir eru: Galaxy S 4G, Galaxy S2 á samningi AT&T, Galaxy S2 Skyrocket, Galaxy S2 á samningi T-Mobile, Galaxy S2 Epic 4G, Galaxy S Showcase, Droid Charge og Galaxy Prevail.

Krafa Apple tekur ekki til nýjasta snjallsíma Samsung og flaggskipi fyrirtækisins, Galaxy S3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×