Viðskipti erlent

Spánn þarf 6.500 milljarða króna aðstoð

Bankar á Spáni þurfa að safna um 40 milljörðum evra, jafnvirði 6.500 milljarða króna, til að mæta áföllum á mörkuðum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í gærkvöldi. Spánn er miklum vandræðum en búist er við að ríkið leiti formlega eftir fjárhagslegri aðstoð Evrópusambandsins í dag. Spán vantar peninga til að endurfjármagna bankakerfið í landinu sem er lamað. Hingað til hafa yfirvöld landsins aftur á móti þvertekið fyrir að þörf sé á aðstoð vegna bankakerfisins.

Fjármálaráðherrar evrulandanna ætla að halda símafund í dag til að ræða mögulegar björgunaraðgerðir vegna aðstöðunnar á Spáni. Boðaður hefur verið blaðamannafundur síðar í dag til að kynna niðurstöður símafundarins.

Embættismenn í Brussel eru áfjáðir að leysa vanda Spánar fyrir þingkosningar í Grikklandi hinn 17. júní næstkomandi, en niðurstaða kosninganna gæti skipt sköpum um framtíð Grikklands á evrusvæðinu.

Umfjöllun BBC um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×